Þjálfararáðstefna ITF í Kólumbíu

Þessa dagana er þjálfararáðstefna ITF í fullum gangi í Bogota í Kólumbíu en Raj K. Bonifacius fór út sem fulltrúi Íslands.

Ráðstefnan er haldin annað hvert ár en þetta árið var þema ráðstefnunnar einstaklingsmiðuð þjálfun (e. player-centred coaching). Á ráðstefnuna mæta almennt um það bil 500 þjálfarar frá yfir 100 löndum. Á ráðstefnunni eru bæði fyrirlestrar og kennslustundir sem haldnar eru á tennisvellinum og auðvitað gott tækifæri fyrir þjálfarana að læra hvor af öðrum og deila boðskapnum síðan þegar þeir koma aftur heim með öðrum þjálfurum.

Á ráðstefnunni var farið yfir ýmsa þætti sem tengjast tennis og sérstaklega því sem þarf til að koma tennisfólki langt í íþróttinni. Til dæmis með áherslu á sálfræði, íþróttavísindi, þróun spilarans, ITF World Tennis Number, WISH (women in Sport High-performance Pathway Programme) og ýmsa aðferðafræði.

Tennis er í sífelldri þróun, bæði hvað varðar aukna áherslu á andlegu hliðina en sömuleiðis hvers konar þjálfun hentar best fyrir hvern einstakling. Því er virkilega mikilvægt að fylgjast með því sem er að gerast í tennis um allan heim og mæta á viðburði sem þessa.